Um Studio Flamingó

Studio Flamingó býður upp á úrval af einstaklega vönduðum og handgerðum eilífðarblómvöndum til að fegra heimilið. 

Ég hef alltaf elskað blóm. Hvort sem það var þegar ég var krakki og sleit reglulega upp blómin hennar ömmu minnar til að gleðja hana, eða þegar ég reif upp alla túlípana nágrannans til að skreyta leiði hjá litlum fugli. Ég fann allskyns leiðir til að eignast blóm því þau voru bara svo falleg. Í dag er ég þó hætt slíku... en skreyti heimilið mitt með blómamynstrum bæði í vefnaði, á skrautmunum og blómamyndir prýða veggina og ásamt því vil ég helst vera með alla vasa fulla af blómum.

Ég hef alltaf ætlað mér að gera eitthvað meiraen án þess þó að vita hvað það væri, en ég bý yfir mikilli sköpunarþörf sem ég hef fundið ólíkan farveg fyrir síðastliðin ár. Eftir um 15 ár að halda úti einu vinsælasta bloggi landsins, Svart á hvítu sem finna mátti á lífstílsvefnum Trendnet.is var kominn tími á eitthvað nýtt.

Studio Flamingó verður minn vettvangur til að skapa, hvort sem það er að setja saman einstaka blómvendi, sinna skreytingarverkefnum þar sem sköpunargleðin fær að leika lausum hala, eða að fá að fjalla um allt það sem mér þykir fallegt, í máli og myndum - hér á nýja bloggvettvanginum mínum.

Hvaðan kemur nafnið?

Flestir sem kynnast mér læra fljótt að ég er mikill fagurkeri. Ég elska blóm og líka fugla og safna ég fuglastyttum og uppstoppuðum fuglum (…já ég veit), og sameinar nafnið Flamingó því bæði uppáhalds fuglinn minn og uppáhalds blómið mitt, Anthurium sem kallað er Flamingó. 

Nafnið Blómasvana er einnig oft tengt við mig en það er falleg tilvísun í ömmu mína sem kölluð var Blómadísa um áratugaskeið í Hafnarfirðinum þar sem hún vann við að fegra bæinn með blómum. Hin amma mín, Svana á einnig stóran part af þessari blómavegferð minni, henni hjálpaði ég á sumrin að hreinsa blómabeðin en báðar ömmurnar áttu verðlaunagarða og voru með sannkallaða græna fingur. Ég erfði þó ekki grænu fingurnar og var reglulega minnt á það með visnuðum pottablómum og grænu vatni í blómavösum, og hef því í dag kosið eilífðarblómin fram yfir þau ekta!

Hvaðan kom hugmyndin? 

Það var í Flórída jólin 2023 þegar ég var í heimsókn hjá systur minni sem þá bjó þar, og ég varð svo heilluð af gerviblómaskreytingum, á hótelum og í útstillingum verslana og víðar. Ég verslaði mér í þessari ferð gerviblóm sem dugðu í nokkra vendi sem ég elskaði að raða saman og þarna kviknaði hugmyndin. Ég skyldi leigja þau út, svo fleiri gætu fengið að njóta. Því ég var var sannfærð um að það væru fleiri þarna úti eins og ég - sem vilja geta haldið veislu með heilu blómahafi án þess þó að þurfa að tæma veskið.

Strax myndaðist mikill áhugi og snemma árs 2024 leigði ég fyrstu gerviblómvendina út í nokkrar veislur. Þegar leið á vorið hafði ég þó skipt út Flórída silkiblómunum, sem voru ekki mjög vönduð, þegar ég hóf að flytja inn til landsins þessi einstaklega vönduðu eilífðarblóm sem hafa ótrúlega áferð, nánast eins og alvöru blóm. Allskyns boð um blómaskreytingar fyrir einkaviðburði og samstörf við fyrirtæki fóru að streyma inn sem hafa veitt mér mikla gleði og hef ég notið þeirrar gæfu að hafa ekki þurft að auglýsa þjónustuna mína.

Markmiðið mitt var einnig að hefja sölu á eilífðarblómvöndum til einstaklinga og hlakka ég til að stækka þá hugmynd enn meira með Studio Flamingó.

Hver er minn bakgrunnur?

Ég lærði vöruhönnun við Design Academy Eindhoven í Hollandi og við Listaháskóla Íslands þaðan sem ég útskrifast árið 2012. Eftir námið starfaði ég lengi við blaðamennsku og skrifaði um hönnun og heimili fyrir Hús og Hýbíli, Nude Magazine og Glamour og hef starfað sem fjölmiðlafulltrúi og við samfélagsmiðla fyrir Epal um árabil.

Ég var hluti af Trendnet teyminu frá stofnun með bloggsíðuna mína Svart á hvítu og einkenndust þessi 15 ár úr bloggheiminum af dýrmætri vináttu, mikilli reynslu og tengslaneti sem ég mun alltaf búa að.

Sum ykkar hafa fylgst með frá byrjun og aðrir eru að kynnast mér í fyrsta sinn. Býð ég ykkur öll velkomin og ég hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með þessari nýju vegferð minni.

Blómakveðja, Svana